top of page

Að sleppa tökunum á fortíðinni og lifa hamingjusöm í núinu

  • Writer: Björk Ben
    Björk Ben
  • Mar 1, 2021
  • 8 min read

ree

Vanar og reynsla fortíðarinnar eru eitthvað sem margir eiga erfitt með að sleppa tökunum á. Sársaukafullir atburðir gerast sem sýnist ógerlegt að komast yfir virðast marka okkur fyrir lífstíð. En með því að halda í fortíðina á þennan hátt, erum við að koma í veg fyrir að læra af reynslunni og halda áfram með líf okkar.


Getum við lært hvernig við sleppum tökunum ?


Það eru nokkur skref sem þarf að taka til að sleppa tökunum á fortíðinni. Hvort sem það eru sambandsslit, lát náins ástvinar, atvinnumissir eða hvað annað, þessi sömu skref er hægt að taka. Samt sem áður er gott að vita að eftir því sem tilfinningarnar sem fylgja því sem hefur gerst, eru dýpri innra með okkur, því erfiðara getur verið að sleppa tökunum. En ekki örvænta, ef þínar eru mjög djúpar, þú mátt vita að það er samt hægt.


Það er ekki hægt að jafna sig eins og ekkert sé eftir áföll. Maðurinn er tilfinningavera sem upplifir allskonar tilfinningar, bæði jákvæðar og neikvæðar. Tíminn hjálpar oft til með að jafna sig, en sálfræðilega getum við haldið í tilfinningar tengdum gömlum áföllum miklu lengur en við þurfum.


Ef það á við þig, þarftu að taka miðvituð skref til að leyfa huga þínum, líkama og sál þinni að sleppa tökunum á þessum tilfinningum, svo þú getir haldið áfram að þroskast og fundið hamingjuna á ný.


Hér er stutt dæmisaga, falleg en samt sorgleg, hún minnir okkur á hættuna sem fylgir því að læra ekki af áföllum og finna hamingjuna á ný, heldur halda í þau.


Einu sinni var fugl sem var algjörlega frjáls úti í náttúrunni.

Hann flaug um allt og naut þess að finna vindinn fyrir neðan vængina sína, finna regndropa strjúka sér á leið sinni niður á jörðina og að sjá sólina rísa og setjast.


En þegar eitthvað gerðist sem gerði fuglinn sorgmæddan, náði hann í stein sem hann hafði svo með sér, sem minnti hann á atburðinn. Í lok dags, skoðaði hann og raðaði steinunum. Rifjaði upp það sem var sorglegt og grét. Hann var alltaf með steinan á sér, hvort sem hann var fljúgandi eða gangandi á jörðinni. Hann gleymdi þeim aldrei.


Eftir því sem tíminn leið, átti fuglinn orðið marga steina. Samt reyndi hann að njóta dagsins eins og áður og skoða steinana á kvöldin og rifja upp atburðina sem áttu við þá. En einn daginn var þyngdin á steinunum orðin það mikil að fuglinn gat ekki lengur flogið með þá.


Þessi frjálsi fugl, konungur himnanna, gat ekki lengur flogið, hann gat illa gengið heldur. Það eina sem hann gat, var að setja kyrr og velta fyrir sér steinunum sínum...


6 æfingar sem kenna þér að sleppa tökunum á fortíðinni og finna hamingjuna á ný.


1. Skilja og sætta sig við


Áður en þú getur sleppt tökunum af áfalli, þarftu að horfast í augu við atburðinn og skilja hvað gerðist. Það er fyrsta skrefið í að sætta sig við hann og venjulega erfiðasta skrefið. Að sætta sig við atburðinn þýðir ekki að þú eigir að samþykkja að það hafi verið í lagi það sem gerðist. Heldur þýðir það að átta sig á því að þetta hefur þegar gerst og í raun ekkert sem þú getur gert sem breytir því. Og það sem þú þarft að gera er að breyta viðhorfi þínu gagnvart atburðinum og jafnvel gerandanum. Þetta skref er mikilvægast og oft þarna sem fólk er stopp í að komast yfir áfall.


Mundu að það er algerlega ómögulegt að vita fyrir vissu hver ásetningur annarra er án þess þeir útskýri hann fyrir þér. Þú skalt því ekki gefa þér einhverjar forsendur fyrir aðra. Það er líka mikilvægt að átta sig á að þú getur bara stýrt þínum gjörðum og hugsunum en ekki annarra.


Mundu líka að ef það er gerandi í áfallinu sem þér finnst hafa gert eitthvað rangt þá varst þú ekki að gera neitt af þér, þeirra gerðir eru afleiðing af þeirra líðan, þú kallaðir áfallið ekki yfir þig.


Í sumum tilfellum, getur verið að þú náir aldrei að skilja afhverju eitthvað gerðist að fullu. En þá er samt sem áður mikilvægt að, meðvitað, velja að sleppa tökunum.


Þegar við erum alltaf að rifja upp það sem gerðist aftur og aftur til að reyna að skilja það, erum við að festa tilfinningarnar sem fylgdu atburðinum enn betur í líkamanum, sem þýðir að það getur verið enn erfiðara að sleppa tökunum á honum. Það getur verið mjög erfitt að komast yfir þetta tímabil, þar sem við erum alltaf að spyrja „afhverju ?“ En þá þurfum við að nota viljastyrk sem við öll höfum og ákveða að þetta sé orðið gott núna og sleppa tökunum.


Með því að taka þetta skref brjótum við upp hugsanamynstur okkar og komumst út úr síendurteknum neikvæðum hugsunum og tilfinningum sem hafa neikvæð áhrif á okkur bæði andlega og líkamlega.


2. Leyfðu þér að fara í gegnum tilfinningarnar


Annað sem margir gera er að grafa tilfinningar sem fylgja áfalli svo langt niður að það er stórátak að finna þær aftur, af ótta við að líða illa. Sérstaklega karlmenn eiga það til að grafa tilfinningar sínar af því að í menningu okkar hefur tíðkast að karlmenn eigi ekki að sína veikleikann, sem það er talið vera, að tjá tilfinningar sínar.


Það er mjög mikilvægt og nauðsynlegt að tjá tilfinningar sínar til að heila sig. Þegar við gröfum tilfinningar okkar svona niður, festast þær og hafa slæm áhrif á okkur andlega og líkamlega.


Reyndu að finna þessar tilfinningar og leyfa þér að finna þær. Þegar þú leyfir þér að finna þær, sitja í þeim í smá stund, án þess að ýta þeim í burtu, þá dofna þær.


Það er sama hvort þú upplifir skömm, afbrýðisemi, reiði eða sorg, þær eiga allar rétt á sér og allir upplifa þessar tilfinningar einhver tímann. Til að sleppa þeim, þarftu að leyfa þér að finna þær án þess að skammast þín fyrir þær.


Finndu þér tíma og stað þar sem þú upplifir öryggi, jafnvel bara í einrúmi eða með einhverjum sem þú treystir. Dragðu djúpt andann og leyfðu þér að finna þær, ekki streitast á móti þeim, heldur leyfðu þeim að koma, vera og fara svo.


Ef þú upplifir sorg, gráttu þá !


Ef þú upplifir reiði, leystu þá um reiðina á heilbrigðann hátt, t.d. með því að gera líkamlega áreynslu á einhvern hátt.


Ef þú upplifir að þurfa að hlægja, hlæðu þá þar til þér er illt í maganum.


Þú munt sjá að þegar þú ferð í gegnum þessar tilfinningar, mun hver og ein leiða þig í gegnum þá næstu. Við þurfum bæði að heila hjarta okkar og huga.



3. Fyrirgefðu þér og öðrum


Fólk býr sér oft til ástæðu fyrir að vera fast í áföllum, því það getur ekki fyrirgefið gerandanum eða hinum aðilanum. En gleymir því að oftast sökum við okkur sjálf um eitthvað tengt atburðinum, sem er miklu mikilvægara að fyrirgefa.


Fyrirgefning er einfaldlega að skilja hvað gerðist, taka lærdóminn sem maður átti að fá í atburðinum og sleppa tökunum á reiðinni eða sorginni sem þú hefur gagnvart öðrum. En ekki gera það bara gagnvart öðrum, gerður það líka gagnvart þér.


Það er eðli mannsins að upplifa að hann hafi gert eitthvað af sér og upplifa skömm eða ásaka sjálfan sig. Jafnvel þótt allir aðrir sjái að það hafi ekki verið þín sök á nokkurn hátt, þá gætir þú samt verið að hugsa að þú hefðir átt að vita eitthvað eða að þetta hefði ekki gerst fyrir einhvern annan en þig.


Þetta er varnarkerfi huga þíns sem finnst auðveldara að bera ábyrgðina á atburðinum heldur en að upplifa sorg.


Líttu á aðstæðurnar á hlutlausann hátt, skoðaðu hvort það er eitthvað þar sem þú þarft að fyrirgefa þér fyrir og gerðu það. Hættu að gagnrýna þig og leyfðu þér að sleppa tökunum af þessu.


4. Lifðu í núinu


Leiði og sorg lifa í fortíð okkar og óttinn lifir í framtíð okkar. Það er eðli mannsins að óttast það sem hann þekkir ekki eða hefur ekki þegar lifað. Og það er líka í eðli okkar að byggja á reynslunni úr fortíðinni. Þess vegna er mikilvægt, sérstaklega núna þegar óvissan um framtíðina er mikil að einbeita sér að nútíðinni. Og vera í núinu.


Þegar við erum í núvitund og lifum í núinu getur verið mjög góð leið til að líða betur. Og þegar við erum í núinu erum við yfirleitt besta útgáfan af okkur sjálfum, við hlustum betur, við vöndum okkur hvað við segjum og við jafnvel förum eftir innsæinu okkar.


Byrjaðu að hugsa betur um þig strax. Er eitthvað sem þú hefur ekki sinnt nógu vel í þinni heilsu ? Taktu skrefið til að taka stjórnina á þínu lífi. Leyfðu þér að vera þú, gefðu þér tíma og spurðu þig hvernig þér líður og hvað þú gætir gert fyrir þig, til að þú myndir upplifa meiri hamingju, meiri jákvæðni og meiri sátt við þitt líf. Og mundu það er enginn annar sem getur gert þig hamingjusamari. Hamingjan kemur alltaf innan frá.


Gerðu meira af því sem þér þykir skemmtilegt, sérstaklega eitthvað skapandi. Dansaðu, syngdu, litaðu, málaðu, byggðu, hannaðu, búðu eitthvað til.


Þegar við erum döpur eða hrædd gleymum við oft að hugsa um okkur. Bæði líkamlega og andlega. Taktu þér tíma í að gera eitthvað skemmtilegt og líka eitthvað nærandi.


Eyddu tíma í að dekra við þig, farðu í langt bað með sjávarsalti, farðu í langa göngutúra, hvað sem þig langar að gera. Settu athyglina á þig og gerðu eitthvað sem nærir þig. Þú átt það skilið.


5. Taktu skref í átt að betri líðan


Þegar þú ert búin að ná tökum á því að lifa meira í núinu og skoða hvað þú virkilega vilt í lífinu, hvernig þú vilt að þér líði og hvað þarf að gerast til að það verði að raunveruleika, skaltu setja upp plan um hvernig þú ferð að því. Plön um jákvæðar breytingar sem eru þær mikilvægar.


Margir nota tækifærið og skoða og meta alla fleti á lífi sínu. En hvað sem þú ákveður að gera þá, er þetta tækifærið til að taka ábyrgð á eigin lífi og stýra þínu lífi og hvernig þér líður. Gera allt sem þú getur til að þér líði vel og það endist og hætta því sem hefur slæm áhrif á þig.


Hefur þig alltaf langað að ferðast ? Þá skaltu skoða hvernig þú lætur þann draum rætast að fara eitthvað sem þig langar. Er starfið sem þú ert leiðinlegt ? Skoðaðu þá hvað það er sem þig langar að gera í staðinn og taktu skrefin í átt að því.


Hvaða skref sem þú ákveður að taka, þá ertu að bæta líf þitt svo lengi sem þú hlustar á innsæið þitt og veist hvað þú vilt. Það skiptir engu hvað þú ert búin að ganga í gegnum, það eiga allir skilið að snúa við blaðinu eða bæta líf sitt. Og það geta það allir með meðvitaðri ákvörðun og vinnu. Ekkert er heimskulegt eða of erfitt og það er aldrei betri tími til að gera breytingar en einmitt núna.


6. Jákvæðar staðhæfingar sem kenna það að sleppa tökunum af fortíðinni og vera hamingjusöm


Þegar maður byrjar í sjálfsvinnu og vill breyta hugsunum sínum og komast yfir eitthvað í fortíðinni eru möntrur eða jákvæðar staðhæfingar mjög einföld og góð leið til að nota.


Möntrur hjálpa okkur að breyta trú okkar á okkur sjálf sem aftra okkur frá því að vera hamingjusöm. Ef maður er að eiga við lítið sjálfstraust og neikvætt sjálfsmat getur verið erfitt að trúa því að maður geti breytt til hins betra.


En þú getur það !


Við erum ekki það sem við trúum. Heldur er það sem við trúum um okkur sjálf oft byggt á einhverju sem er síðan úr barnæsku og er ekki satt í dag. Börn trúa því sem þeim er sagt, sérstaklega þegar það er einhver þeim nákomin og því alls ekki víst að það sé allt satt sem við höfum með okkur úr barnæskunni.


Með því að fara með möntrur á hverjum degi getur þú byrjað að taka stjórn á eigin lífi strax í dag ! Þú setur inn jákvæðar staðhæfingar í staðinn fyrir neikvæðar og hugurinn okkar sleppir af þessum neikvæðu, því hann getur ekki haldið utan um tvær skoðanir sem stangast á.


Fáðu þér möntru spil og byrjaðu að draga spil á hverjum degi. Farðu með möntruna á hverjum degi fyrir framan spegil og horfðu í augun á þér á meðan.


Farðu með möntruna 3svar sinnum í röð og finndu hvernig þér líður þegar þú ferð með hana. Ef þú upplifir neikvæðar tilfinningar til að byrja með, er það mjög eðlilegt, það er einfaldlega merki um að mantran sé að ýta í burtu og losa um einhverja trú sem er ekki rétt. Haldu áfram að lesa þá möntru í nokkra daga eða þar til hún er ekki lengur að koma upp með þessa tilfinningu.

Comments


Fylgdu okkur á facebook 

bottom of page